Hafa drepið 800 til 900 jíhadista

Kona sem flúði frá Mosúl kyssir hönd barns í flóttamannabúðum …
Kona sem flúði frá Mosúl kyssir hönd barns í flóttamannabúðum í Khazir. AFP

Bandarísk stjórnvöld segja allt að 900 bardagamanna Ríkis íslams hafa fallið í sókninni til að endurtaka Mosúl. Íbúar borgarinnar streyma nú í nærliggjandi búðir og fagna því að komast undan hryðjuverkasamtökunum. Sumir hafa átt endurfundi við ættingja sem þeir hafa ekki séð í meira en tvö ár.

Tugþúsundir íraskra hermanna hafa sótt að Mosúl úr nær öllum áttum, en borgin er síðasta stórborgin á valdi Ríkis íslams í Írak. Hersveitirnar njóta stuðnings bandamanna undir forystu Bandaríkjamanna og kúrdískra peshmerga-sveita.

Á síðustu dögum hefur tekist að ná aftur röð þorpa og bæja úr höndum bardagamanna hryðjuverkasamtakanna, í varfærnislegri en stöðugri sókn.

Að sögn bandaríska hershöfðingjans Joseph Votel hafa átökin tekið sinn toll af Ríki íslams. Hann segir að á bilinu 800 til 900 bardagamenn samtakanna hafi verið drepnir á síðustu einni og hálfri viku.

Bandaríkjamenn áætla að 3.500 til 5.000 jíhadistar hafist við í Mosúl og aðrir 2.000 umhverfis borgina.

Sókn bandamanna hefur fram til þessa miðast að því að taka aftur þéttbýlisstaði í nágrenni borgarinnar en gert er ráð fyrir að íraskar hersveitir muni fyrr eða síðar ráðast inn í borgina og berjast við bardagamenn Ríkis íslams á götum úti.

Sumt fólkið hefur ekki séð ættingja sína í tvö ár.
Sumt fólkið hefur ekki séð ættingja sína í tvö ár. AFP

Endurfundir

Hjálparsamtök hafa varað við neyðarástandi þegar átök hefjast fyrir alvöru í Mosúl, en íbúar borgarinnar eru yfir milljón talsins. Þúsundir hafa flúið síðustu daga.

Íraska ráðuneytið sem fer með málefni flóttamanna og fólks á vergangi sagði í dag að 11.700 hefðu yfirgefið heimili sín frá því að aðgerðirnar hófust.

Í búðum í Khazir, sem er mitt á milli Mosúl og kúrdísku höfuðborgarinnar Arbil, gægist Massud Ismail Hassan gegnum girðingu og leitar fjölskyldumeðlima. Kúrdískir hermenn sjá um að skrá þá sem koma í búðirnar.

„Þegar allt þetta er yfirstaðið munum við afhenda þeim mat og drykk og teppi sem við komum með,“ segir Hassan.

Aðrar fjölskyldur hafa þegar sameinast og við girðinguna umhverfis búðirnar mátti sjá fólk haldast í hendur gegnum girðinguna og gráta.

Saddan Dahham, sem bjó undir stjórn Ríkis íslams í þorpi nærri Mosúl í tvö ár, flúði til Khazir ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum.

„Okkur var ekki leyft að reykja, nota síma, ekki leyft að horfa á sjónvarpið og við þurftum að láta skegg okkar vaxa,“ segir hinn 36 ára Dahham.

Eitt af því fyrsta sem hann gerði í búðunum var að raka skegg sitt. „Ég ætla loksins að fara að lifa eðlilegu lífi á ný,“ segir hann.

Áætlað er að allt að 200.000 manns fari á vergang áður en aðgerðum lýkur. Þær búðir sem nú eru starfræktar taka um 60.000 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert