Tæplega 100 flóttamanna saknað

Flóttamennirnir leggja í hættulega siglingu á illa útbúnum bátum.
Flóttamennirnir leggja í hættulega siglingu á illa útbúnum bátum. AFP

Líbíski sjóherinn tilkynnti í morgun að tæplega 100 flóttamanna væri saknað eftir að bátur þeirra sökk. Förinni var heitið frá Afríku til Evrópu en 29 flóttamönnum var bjargað.

„Samkvæmt upplýsingum sem við fengum síðdegis í gær var 20 ólöglegum innflytjendum bjargað,“ sagði Ayoub Qassem, talsmaður sjóhersins, við AFP-fréttaveituna.

„Þau voru á báti sem fylltist skyndilega af vatni,“ bætti hann við.

Qassem vitnaði í einn þeirra sem var bjargað. Sá sagði að 126 flóttamenn hefðu verið í bátnum, sem lagði af stað um 70 kílómetra austan við Tripoli, höfuðborg Líbíu.

Báturinn hvarf í háar öldur eftir að hann fylltist af vatni. Þrjár konur og barn eru á meðal þeirra sem saknað er.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa 3.800 flóttamenn látið lífið á siglingunni hættulegu frá Afríku til Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert