Nota tugi þúsund íbúa sem „mannlega skildi“

Skólastofa sem sett hefur verið á hvolf í þorpinu Kalak,austur …
Skólastofa sem sett hefur verið á hvolf í þorpinu Kalak,austur af Mósúl. Hersveitir Íraka náðu þorpinu úr höndum Ríkis íslams í áhlaupi undanfarinna vikna. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa rænt tugum þúsunda almennra borgara úr næsta nágrenni Mósúl borgar til að nota sem mannlega skildi, að því er fréttavefur BBC hefur eftir Ravinu Shamdasani, talsmanni Sameinuðu þjóðanna.

Samtökin eru einnig sögð hafa drepið um 190 manns, sem áður tilheyrðu írösku öryggissveitunum og 42 almenna borgara fyrir að neita að hlýða skipunum þeirra.

Hersveitir Íraka, Kúrda og bandamanna færast stöðugt nær Mósul, sem er eitt af höfuðvígum Ríkis íslams í Írak, en talið er að um 1,5 milljón manna sé enn í borginni. Óttast menn að vígamenn samtakanna kunni að nota íbúa sem mannlega skildi er átökin færast nær miðju borgarinnar.

BBC segir skýrslur sem taka megi trúanlegar, benda til þess að almennir borgarar í úthverfum Mósúl hafi verið neyddir til að yfirgefa heimili sín og flytja sig inn í borgina eftir að áhlaupið á Mósúl hófst fyrr í mánuðinum.

Að sögn Shamdasani hefur fólki úr um 6.000 fjölskyldum á svæðinu verið rænt. „Fólskuleg og hugleysisleg stefna Ríkis íslams felst í því að reyna að nota nærveru gísla til að gera hernaðaráhlaup ómöguleg á viss svæði með því að nota tugi þúsunda kvenna, karla og barna sem mannlega skildi,“ sagði hún.

Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar staðfest að þessar upplýsingar séu réttar, en tala þeirra íbúa sem rænt hefur verið kann þó að vera hærri.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í síðustu viku að hryðjuverkasamtökin væru augljóslega ekki að leyfa íbúum að flýja frá átakasvæðinu og að þeim íbúum sem virtustu ekki sýna samtökunum hollustu væri refsað. Einungis fáir íbúar hefðu því flúið Mósúl til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert