Sýknaður 21 ári eftir aftökuna

Lögreglumenn í Kína. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum …
Lögreglumenn í Kína. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Hæstiréttur Kína hefur ógilt dóm yfir manni sem var sakfelldur fyrir nauðgun og morð en hann var tekinn af lífi árið 1995. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að staðreyndir hafi verið á reiki við réttarhöldin og sönnunargögnin ófullnægjandi.

Nie Shubin var tvítugur þegar hann var leiddur fyrir aftökusveit fyrir að hafa myrt og nauðgað konu í Shijiazhuang í Hebei-héraði. Fjölskylda hans hefur barist fyrir því að hreinsa nafn hans síðustu tvo áratugina. Ellefu ár eru liðin frá því að annar maður játaði að hafa framið glæpinn en yfirvöld höfnuðu henni.

Frétt Mbl.is: Var Nie svo alls ekkert sekur?

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC sakfella kínverskir dómstólar í 99% tilfella. Fjölda aftaka í landinu er ríkisleyndarmál en talið er að þúsundir séu teknir af lífi á hverju ári. Mannréttindasamtök hafa haldið því fram að játningar séu knúnar upp úr sakborningum með valdi eða pyntingum.

Afar óvenjulegt er að dómar séu ógiltir. Fréttaritari BBC segir að mál Nie sé frægt í Kína. Líkur séu á því að landsmenn sjái ákvörðun hæstaréttar nú frekar sem dæmi um galla og veikleika í réttarkerfinu en getu þess til að bæta fyrir ranglæti.

Fyrir tveimur árum var táningur frá Mongólíu sýknaður af nauðgun og morði átján árum eftir að hann var tekinn af lífi. Foreldrar hans fengu þrjú þúsund dollara í miskabætur frá stjórnvöldum en á þriðja tug embættismanna var refsað í kjölfarið.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert