Castro lét byggja knattspyrnuvöll

Fídel Castro árið 2005.
Fídel Castro árið 2005. AFP

Fidels Castro, fyrrverandi leiðtoga Kúbu sem lést á dögunum, hefur verið minnst víða um heim sem annaðhvort byltingarhetju eða miskunnarlauss harðstjóra. Íbúarnir í hverfinu hans líta aftur á móti á hann sem vinalegan gamlan karl sem beitti áhrifum sínum til að byggður yrði fótboltavöllur fyrir börnin í hverfinu, tveimur vikum fyrir dauða hans.

Reuters greinir frá þessu.

Castro lést 25. nóvember, níræður að aldri. Hann leiddi byltingu á Kúbu árið 1959 og bauð Bandaríkjamönnum birginn í fimm áratugi áður en bróðir hans Raul Castro tók við völdum.

Frétt mbl.is: Fidel Castro látinn

Castro bjó í vesturhluta Havana, höfuðborgar Kúbu, í glæsihýsi sem var vel falið á bak við tré. Í nágrenni hússins er hefðbundið kúbverskt hverfi sem kallast Jaimanitas. Þar stoppaði hann bíl sinn reglulega og ræddi við fólkið, að sögn nágranna hans.

Eitt af síðustu verkum Castro áður en hann lést var að fyrirskipa að knattspyrnuvöllur yrði byggður fyrir krakkana í hverfinu, eftir að hafa séð þá leika sér í fótbolta á götunni.

„Ég talaði við hann fyrir mánuði síðan,“ sagði Yossiel Calvo, sem er þrettán ára. „Hann sagðist ætla að búa til knattspyrnuvöll fyrir okkur og hann gerði það. Þeir eru að byggja hann núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert