Áfram á topp tíu þrátt fyrir sjálfsvíg

Veitingastaðurinn er í fjórða sæti hjá La Liste.
Veitingastaðurinn er í fjórða sæti hjá La Liste. Ljósmynd/l´Hotel de Ville

Svissneskur veitingastaður sem var valinn sá besti í heiminum á síðasta ári hélt sæti sínu á topp tíu lista La Liste þrátt fyrir sjálfsvíg síns frægasta kokks.

Veitingastaðurinn, Restaurant l´Hotel de Ville, er staðsettur í Crissier, úthverfi borgarinnar Lausanne. Hann varð í fjórða sæti á listanum, ásamt öðrum veitingastað.

Yfirkokkurinn Benoit Violier var 44 ára þegar hann skaut sig í janúar, aðeins sjö vikum eftir að veitingastaðurinn var valinn sá besti í heimi af La Liste, sem velur árlega 1.000 bestu staði heims.

Ekkja Violier hét því að staðurinn yrði áfram opinn þrátt fyrir fráfall hans. Síðan þá hefur staðurinn haldið sínum þremur Michelin-stjörnum.

La Liste heldur því fram að listinn þeirra sé „vísindalegri og áreiðanlegri“ en hjá keppinautum þeirra í Bretlandi sem velja 50 bestu veitingastaði heims.

Franski kokkurinn Guy Savoy varð efstur hjá La Liste með veitingastaðinn sinn la Monnaie í París.

Tveir veitingastaðir í Tókíó komust á topp tíu, ásamt tveimur stöðum í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert