97 fundist látnir eftir jarðskjálftann

Hlúð er að sjúklingum á flötinni fyrir utan sjúkrahúsið í …
Hlúð er að sjúklingum á flötinni fyrir utan sjúkrahúsið í Pidie Jaya, þar sem fæstir þora inn vegna eftirskjálfta. AFP

Tala látinna í jarðskjálftanum á Súmötru í gærkvöldi heldur áfram að hækka og er nú komin upp í 97 manns, að því er fréttavefur BBC greinir frá. Á þriðja hundrað manns slösuðust í skjálftanum, sumir alvarlega.

Jarðskjálft­inn, sem mæld­ist 6,5 stig, varð á litlu dýpi í Pidie Jaya-sýslu í Aceh-héraði. Hann reið yfir snemma morg­uns að staðar­tíma, þegar íbú­ar sem eru flest­ir múslim­ar, voru á leið til morg­un­bæna. Hundruð bygg­inga hrundu til grunna í skjálftanum.

Frétt mbl.is: 52 farast í jarðskjálfta á Súmötru

„Til þessa höfum við fundið 97 látna og talan heldur áfram að hækka,“ sagði Tatang Sulaiman, yfirmaður hersins, í sjónvarpsviðtali.

Um 150.000 manns búa í Pidie Jaya, sem er við norðurströnd Aceh og um 110 km frá héraðshöfuðborginni Banda Aceh.

Talsmaður almannavarna Indónesíu, Sutopo Nugroho, sagði rúmlega 200 verslanir og heimili hafa eyðilagst í skjálftanum, sem og 14 moskur. Þá hefðu orðið miklar skemmdir á sjúkrahúsi og skólum á svæðinu.

„Við óttumst að tala látinna muni halda áfram að hækka, þar sem líklegt er að fólk sé enn grafið undir rústunum. Björgunaraðgerðir eru nú í fullum gangi,“ sagði Nugroho. Þúsundir hermanna og björgunarsveitamanna hafa verið sendar á staðinn.

Enginn flóðbylgjuviðvörun var gefin út vegna jarðskjálftans í gær, en Aceh hérað varð illa fyrir barðinu á flóðbylgjunni á Indlandshafi 2004, sem kostaði meira en 160.000 mannslíf í Indónesíu.

Íbúar Pidie Jaya safnast saman fyrir utan mosku sem hrundi …
Íbúar Pidie Jaya safnast saman fyrir utan mosku sem hrundi í skjálftanum, sem mældist 6,5 stig. Almannavarnir segja um 200 byggingar hafa jafnast við jörðu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert