Brýnt að bregðast við loftmengun

Aldrei hefur mengun mælst jafn mikil í París og nú.
Aldrei hefur mengun mælst jafn mikil í París og nú. AFP

Franskir læknar segja að það sé brýnt að grípa til frekari aðgerða til að sporna gegn loftmengun í París, höfuðborg Frakklands. Loftmengun í borg­inni hefur ekki mælst meiri að vetr­ar­lagi í ára­tug. Í vikunni var fólk hvatt til að nota almenningssamgöngur og gripið hefur verið til um­ferðar­tak­mark­an­a.

Einka­bíl­um sem eru með bíl­núm­er sem enda á sléttri tölu var bannað að vera á ferðinni á tilteknum tímum. Daginn eftir gilti sama bann fyrir ökutæki með núm­er sem end­ar á odda­tölu. Í borginni Lyon var sett sambærilegt bann við umferð ökutækja í borginni til að draga úr menguninni. 

Ástæður þess­ar­ar óvenju­miklu meng­un­ar eru sagðar vera út­blást­ur frá öku­tækj­um, reyk­ur frá ar­in­eld­um borg­ar­búa og óvenju­mik­il stilla í lofti sem veld­ur því að meng­un­in dreif­ist ekki. Um helgina er búist við að það muni létta til í borginni þegar vindáttin breytist og mengað loft nær að stíga upp til himins. 

„Við áætlum að mengunin dragi árlega um 48 þúsund mannst til dauða í Frakklandi. Þetta er um níu prósent af öllum dauðsföllum,“ segir Sylvia Medina læknir. Hún bendir á að ef borgir og bæir ná að draga úr loftmengun og koma henni niður í þau mörk sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mælir með yrði hægt að fækka dauðsföllum um 17 þúsund. Börn, eldra fólk og barnshafandi konur eru einkum viðkvæmar fyrir menguninni.  

Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, sagði að 55% af allri mengun í borginni væri rakin til ökutækja. Andstæðingar hennar gagnrýna aðgerðirnar og segja þær eingöngu til þess fallnar til að skapa meira umferðaröngþveiti og meiri mengun í borginni. 

Ökumenn ökutækja virðast ekki virða bannið þrátt fyrir að eiga yfir höfði sér sekt ef þeir brjóta það. „Þetta er leiðinlegt. Fólki virðist standa á sama,“ sagði Stephane Toni sem er 38 ára gamall verðbréfasali við AFP, um þá sem fara ekki eftir banninu. Toni fer leiðar sinnar í borginni á reiðhjóli. Hann segist sjálfur ekki finna mikið fyrir menguninni á eigin skinni en hvetur samborgara sína til að axla ábyrgð. „Reiðhjólafólk ætti samt að vera með grímu,“ bætti hann við.   

Frétt mbl.is: Mikil loftmengun í París

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert