Dularfullur dauði sjö mörgæsa í dýragarði

Humboldt-mörgæsir, líkt og þær sem drápust í Calgary dýragarðinum.
Humboldt-mörgæsir, líkt og þær sem drápust í Calgary dýragarðinum. Wikipedia

Forsvarsmenn dýragarðsins Calgary í Kanada rannsaka nú hvernig sjö mörgæsir gátu drukknað í dýragarðinum, fréttavefur BBC hefur eftir þeim að atburðurinn sé algjört reiðarslag.

Mörgæsirnar eru svo nefndar Humboldt-mörgæsir og tilheyrðu hópi 22 slíkra mörgæsa sem hafa verið til sýnis í garðinum.

Það var svo í gærmorgun sem mörgæsirnar fundust dauðar í stíu sinni. Dýralæknar hafa þegar krufið dýrin til að úrskurða hver dánarorsökin geti verið. Forsvarsmenn dýragarðsins segjast vera að skoða vandlega hvað hafi valdið dauða dýranna þannig að hægt verði að koma í veg fyrir frekari dauðsföll.

Nokkuð hefur verið um dularfull dauðsföll í dýragarðinum á undanförnum árum. Fyrr á þessu ári drapst oturinn Logan, eftir að hafa flækst í buxum sem dýrahirðir hafði látið hann fá til að leika sér með.

Þá klemmdist vatnadýr í stíu sinni árið 2009, þegar dýrahirðir lokaði vökvastýrðri hurð og loks sagði dýrahirðir upp árið 2011 eftir að hafa verið valdur að dauða kornsnáks þrátt fyrir að hafa fylgt upplýsingum um dýraumhirðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert