Samvaxnar systur aðskildar

Tvíburasysturnar veifa til ættingja sinna fyrir aðgerðina.
Tvíburasysturnar veifa til ættingja sinna fyrir aðgerðina. Ljósmynd/Lucile Packard-barnaspítalinn

Tvíburasysturnar Erika og Eva Sandoval eru tveggja ára. Þær fæddust samvaxnar en í vikunni voru þær aðskildar í flókinni, sautján klukkustunda langri aðgerð.

Stúlkurnar fæddust í Kaliforníu og var aðgerðin gerð á Lucile Packard-barnaspítalanum. Aðgerðin hófst á þriðjudag en lauk ekki fyrr en snemma á miðvikudagsmorgun. Ástand stúlknanna er nú sagt stöðugt. Þær eru enn á gjörgæslu. 

Móðir tvíburanna, Aida Sandoval, segir enn skrítið að sjá stúlkurnar hvora í sínu rúminu. „En þetta færir okkur gleði, þessi aðgerð hefur verið draumur okkar allra.“

Fimmtíu manna læknateymi

Læknirinn Gary Hartman, sem fór fyrir læknateyminu sem framkvæmdi aðgerðina, hitti foreldra stúlknanna fyrst árið 2014 er Aida var enn ólétt. Foreldrarnir höfðu þá fengið þær fréttir að börnin væru samvaxin. Hann segir að allar götur síðan hafi það verið markmið sitt, sjúkrahússins og foreldranna að stúlkurnar fengju notið hamingju og heilbrigðis. Hann segir að foreldrarnir hafi séð um að uppfylla hamingjukröfurnar og að aðgerðin hafi svo verið skref í átt að auknu heilbrigði þeirra. 

Aida var komin 32 vikur á leið er ákveðið var að taka stúlkurnar með keisaraskurði. Allt frá því hefur starfsfólk barnaspítalans fylgst vel með þeim. Stúlkurnar voru samvaxnar frá brjóstbeini niður fyrir mjaðmagrind. Aðgerðin var flókin, þar sem þarmar þeirra voru t.d. samvaxnir að hluta. En smám saman tókst að skilja þær að.

Lækna- og hjúkrunarteymið taldi alls 50 manns. Í þeim hópi voru skurðlæknar með ýmsa sérfræðiþekkingu, s.s. í þvagfæraskurðlækningum og lýtalækningum.

Í ítarlegri umfjöllun NBC-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að eftir að búið var að aðskilja stúlkurnar var teyminu skipt í tvennt og unnið að enduruppbyggingu líkama stúlknanna hvors í sínu lagi.

Aðgerðin gekk vel og annar tvíburinn er nú þegar kominn úr öndunarvél. 

Móðir þeirra segist ekki geta beðið eftir að fá stúlkurnar heim. Hún segir að nú muni gráu hárunum líklega fjölga þar sem stúlkurnar verði athafnasamari hvor í sínu lagi.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert