Játaði barnaníð gegn hundruðum stúlkna

Indverskar konur sitja við varðeld á köldu kvöldi í Delhi. …
Indverskar konur sitja við varðeld á köldu kvöldi í Delhi. Rastogi gerði sér vikulega ferð til borgarinnar í leit að ungum stúlkum. AFP

Indverskur klæðskeri hefur játað að hafa rænt, misþyrmt og nauðgað hundruðum skólastúlkna síðastliðinn áratug. Reuters-fréttastofan hefur eftir lögregluyfirvöldum í Delhi að málið kunni að vera eitt hið stærsta sinnar tegundar til að koma upp á Indlandi í langan tíma.

Klæðskerinn, Sunil Rastogi, sem er giftur 5 barna faðir á fertugsaldri og býr í Rudrapur, var handtekinn á laugardag í tengslum við kynferðislega árás á þrjár níu og tíu ára gamlar stúlkur í Delhi.

„Við yfirheyrslur játaði hann að hann kæmi að minnsta kosti einu sinni í viku frá Rudrapur til að svala fýsnum sínum og að hann leitaði uppi stúlkur á aldrinum 7-10 ára,“ sagði Omvir Singh Bishoi, lögreglustjóri í austurhluta Delhi, á fundi með fréttamönnum.

Rastogi hefur verið ákærður fyrir nauðgun og kynferðislega árás á börn í öllum þremur tilfellum og rannsókn stendur nú yfir í tengslum við fleiri kynferðisglæpi. Að sögn lögreglu mundi Rastogi ekki nákvæman fjölda þeirra stúlkna sem hann hefði áreitt frá 2004, en að hann hafi sagt að þær gætu „numið hundruðum“.

Barnaníð er nokkuð algengt á Indlandi, en er jafnan þagað um það og jafnvel horft fram hjá því hjá fjölskyldum. Þá er algengt að fórnarlömb þori ekki að greina frá því að þeim hafi verið misþyrmt.

Talið er að 94.000 glæpir hafi verið framdir gegn börnum á Indlandi árið 2015 og var um barnaníð að ræða í 40% tilfella.

Lögregla tók Rastogi til rannsóknar í desember, eftir að 10 ára stúlka sem slapp frá honum í Delhi, tilkynnti um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert