Kaci Kullmann látin

Kaci Kullmann Five.
Kaci Kullmann Five. AFP

Kaci Kullmann Five, stjórnarformaður dómnefndar friðarverðlauna Nóbels, er látin 65 ára að aldri. Banamein hennar er krabbamein en hún var greind með brjóstakrabbamein 2014. Hún hefur glímt við erfið veikindi undanfarin ár.

„Hún var fyrirmynd margra ungra kvenna,“ skrifaði forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, á Facebook-síðu sína en Kullmann lést á sunnudag.

Hún var skipuð í dómnefndina árið 2003 og varð formaður hennar árið 2015. Kullmann kom að mörgum umdeildum ákvörðunum nefndarinnar. Svo sem þegar fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Al Gore, var valinn 2007, Barack Obama 2009, kínverski aðgerðarsinninn Liu Xiaobo 2010 og íranski aðgerðarsinninn Shirin Ebadi árið 2003.

Kullmann var viðskiptaráðherra Noregs 1989-1990 og leiðtogi Íhaldsflokksins 1991-1994 en áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum starfaði hún í viðskiptalífi Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert