Skrópuðu ítrekað í vinnunni

Lög voru samþykkt á Ítalíu í fyrra um heimildir til …
Lög voru samþykkt á Ítalíu í fyrra um heimildir til uppsagna opinberra starfsmanna. Var það gert til að reyna að auka skilvirkni hins opinbera. AFP

Læknar og hjúkrunarfræðingar eru meðal 94 starfsmanna á sjúkrahúsi í Napolí á Ítalíu sem sæta rannsókn fyrir að skrópa ítrekað í vinnunni.

Í frétt Reuters um málið segir að einn yfirmaður á Loreto Mare-sjúkrahúsinu hafi verið að vinna sem kokkur á hóteli en þegið laun engu að síður á sjúkrahúsinu. Þá var einn læknirinn alltaf að spila tennis og að versla á vinnutíma. Tveir starfsmenn sjúkrahússins voru gripnir glóðvolgir við að stimpla tuttugu samstarfsmenn sína inn á hverjum degi svo það liti út fyrir að þeir væru mættir til vinnu.

Lögreglan segir að 55 hinna grunuðu séu í stofufangelsi. Stjórn sjúkrahússins hefur enn ekki tjáð sig um málið.

Á síðasta ári voru lög samþykkt á Ítalíu sem heimiluðu brottrekstur opinberra starfsmanna, sem ekki væru að sinna vinnu sinni, á stundinni. 

Voru lögin samþykkt til að reyna að auka skilvirkni hjá hinu opinbera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert