Barist um siðferðileg sjónarmið

Harður diskur.
Harður diskur. Wikipedia/Ed g2s

Fyrrverandi lögreglumaður í Philadelphia í Bandaríkjunum sem hefur varið 17 mánuðum í fangelsi mun dvelja þar um ókominn tíma, þar til hann samþykkir að aflæsa tveimur hörðum diskum í tengslum við barnaníðsrannsókn.

Francis Rawls hefur neitað að verða við tilmælum yfirvalda hingað til og ber við 5. viðauka stjórnarskrárinnar, sem verndar einstaklinga frá því að þurfa að koma upp um sjálfa sig.

Mannréttindasinnar hafa látið sig málið varða þar sem þeir telja einstaklinga eiga rétt á því að vernda viðkvæmar upplýsingar og njóta verndar frá sjálfsásökunum (e. self incrimination).

Eðli gagnanna á hinum læstu drifum vekur hins vegar upp siðferðilegar spurningar, þar sem talið er að drifin geymi barnaníðsmyndir. Á sama tíma og samtök á borð við Electronic Frontier Foundation og American Civil Liberties Union freista þess að standa vörð um réttindi bandarískra borgara eru þau að verja málstað grunaðs barnaníðings.

Málið má rekja til 2015 þegar lögregla í Delaware-sýslu fékk heimild til að leita á heimili Rawls eftir að rannsókn átti sér stað á internet-notkun hans. Lagt var hald á tvo iPhone, Apple Mac Pro og tvö utanáliggjandi harða diska.

Lögregla fékk heimild til að skoða gögnin en Rawls hefur, sem fyrr segir, neitað að aflæsa drifunum. Hún fann hins vegar mynd af ungri stúlku í kynferðislegri stellingu og skrár sem sýndu að tölva Rawls hafði verið notuð til að heimsækja barnaklámssíður.

Þá sagði systir lögreglumannsins fyrrverandi hafa séð hundruðir mynda af barnaníði á hörðu diskunum.

Sérfræðingar segja að þar sem nokkuð víst sé talið að Rawls kunni aðgangsorðin að gögnunum haldi hann sjálfur á lyklinum að fangaklefanum en fræðilega séð geta yfirvöld haldið honum föngum þar til hann lætur undan.

EFF og ACLU spyrja hins vegar að því hvers vegna Rawls sé ekki dreginn fyrir dómstóla á grundvelli þeirra sönnunargagna sem þegar liggja fyrir.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert