Valls styður ekki frambjóðanda eigin flokks

Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra, og Benoit Hamon, forsetaframbjóðandi franska Sósíalistaflokksins …
Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra, og Benoit Hamon, forsetaframbjóðandi franska Sósíalistaflokksins og samflokksmaður Valls. Hann nýtur hins vegar ekki stuðnings Valls, heldur óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron. AFP

Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, hefur lýst yfir stuðningi við óháða frambjóðandann Emmanuel Macron í forsetakosningunum sem fram fara í landinu í næsta mánuði, í stað þess að styðja frambjóðanda eigin flokks.

„Þetta er spurning um rökhyggju,“ sagði Valls í samtali við franska sjónvarpsstöð. Macron, sem er talinn líklegur til að etja kappi við Marine Le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðfylkingarinnar, þakkaði Valls samstundis stuðninginn.

Valls þurfti sjálfur að lúta í lægra haldi í forvali franska Sósíalistaflokksins á forsetaefni, sem valdi Benoît Hamon sem frambjóðanda flokksins. Valls sagði ástæðu þess að hann lýsti yfir stuðningi við Macron, en ekki Hamon, vera hættuna sem hann teldi á að forsetaembættið félli í hendur hægri flokks eða hægri öfgaflokks.

„Ég tel ekki að maður eigi að taka áhættu varðandi lýðveldið. Þannig að ég mun kjósa Emmanuel Macron,“ sagði hann. Fréttavefur BBC segir Valls síðan hafa hitt þingmenn Sósíalistaflokksins í gærkvöldið til að útskýra ákvörðun sína.

Valls er ekki eini þingmaður sósíalista til að lýsa yfir stuðningi við framboð Macrons, þar sem varnarmálaráðherrann Yves Le Drian og nokkrir aðstoðarráðherrar hafa þegar gert hið sama. Valls er hins vegar sá áhrifamesti þeirra til að gera slíkt.

Macron var efnahagsráðherra í vinstri stjórn Valls, en lét af embætti er hann ákvað að bjóða sig fram til forseta sem óháður frambjóðandi.

Skoðanakannanir benda til þess að Macron og Le Pen fái flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna og verði því þeir frambjóðendur sem kosið verði um í síðari umferð forsetakosninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert