Eldfimt ástand í Austur-Kongó

Íbúar í Austur-Kongó hafa þurft að þola árásir á milli …
Íbúar í Austur-Kongó hafa þurft að þola árásir á milli stríðandi fylkinga í áraraðir. Enn og aftur er allt á suðupunkti og nú í Kasai-héraði. AFP

Að minnsta kosti tuttugu létust í átökum milli þjóðarbrota í Austur-Kongó nýverið. Þetta staðfesta Sameinuðu þjóðirnar. 

Í yfirlýsingu frá sendisveit Sameinuðu þjóðanna í Austur-Kongó segir að átökin hafi átt sér stað austur af höfuðborg Kasai-héraðs, Tshikapa. Átökin voru á milli tveggja þjóðarbrota, Lulua-Luba og Chowe-Pende en þau síðarnefndu telja sig frumbyggja í héraðinu og saka Lulua-Luba, sem eru frá öðru svæði, um að styðja skæruliðahreyfinguna Kamwina Nsapu. Allir þeir sem féllu voru af Chowe-Pende þjóðinni.

Leiðtogi Lulua-Luba var drepinn af lögreglunni á svæðinu í ágúst í fyrra í kjölfar uppreisnar gegn stjórnvöldum í landinu.

Síðan þá hefur ástandið í Kasai-héraði verið eldfimt og átök ítrekað brotist út milli stjórnarhersins og skæruliða. Um 100 manns hafa fallið í þessum átökum, þeirra á meðal tveir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað skæruliðahreyfinguna Kamwina Nsapu um fjölmörg grimmdarverk og að hafa börn í herjum sínum. Stjórnarherinn er einnig sakaður um að beita óhóflegu valdi gegn skæruliðunum sem yfirleitt eru aðeins vopnaðir prikum og steinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert