Lögðu hald á 4.000 asnahúðir

Í Afríku og Asíu er ösnum slátrað ólöglega og húðirnar …
Í Afríku og Asíu er ösnum slátrað ólöglega og húðirnar fluttar til Kína. AFP

Lögregluyfirvöld í Pakistan hafa lagt hald á fleiri en 4.000 asnahúðir sem ætlaðar voru á markað í Kína. Þar eru þær eftirsóttar til notkunar í hefðbundnum lækningum. Húðirnar voru gerðar upptækar í Karachi og voru sex handteknir, þar af einn Kínverji.

Samkvæmt lögreglu barst ábending um smyglvarninginn, sem var fluttur frá Lahore og geymdur í verslun. Tollayfirvöld segja málið virðast umfangsmeira en við fyrstu sýn og hafa það til rannsóknar.

Úr húðunum er unnið gelatín sem nýtur takmarkaðrar eftirspurnar nema í Kína. Þar er það notað í hefðbundin lyf við blóðskorti og fylgikvillum tíðahvarfa.

Hófar asna innihalda einnig gelatín en kjöt skepnunnar, sem er neytt sumastaðar í Kína, er víða talið næringaríkara en nautakjöt.

Hina miklu eftirspurn í Kína eftir erlendu asnakjöti má ekki síst rekja til þess að ösnum hefur fækkað gríðarlega innanlands. Þeir töldu 11 milljónir fyrir aldamót en um 6 milljónir 2013.

Asnahúð verkuð í löglegu sláturhúsi.
Asnahúð verkuð í löglegu sláturhúsi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert