Slapp naumlega frá árás hákarls

AFP

Rúmlega tvítug frönsk kona slapp naumlega frá hákarlaárás í Nýja-Sjálandi í dag en hún var á bretti í Curio-flóa á Suðureyju þegar hákarl réðst á hana.

Hákarlinn réðst á fótlegg hennar en hún slapp með lítilsháttar áverka, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. 

Nick Smart, sem stýrir brettakennslu Caitlin, segir að konan hafi verið í sjónum ásamt félögum þegar hákarlinn réðst á hana. Félagar konunnar drógu hana upp á strönd þar sem hún fékk fyrstu hjálp á meðan beðið var eftir björgunarþyrlu til þess að flytja hana á sjúkrahús.

Smart segir að blæðingin hafi verið mjög mikil en áverkarnir ekki lífshættulegir. Unga konan var með meðvitund allan tímann. 

Mjög sjaldgæft er að hákarlar ráðist á fólk í Nýja-Sjálandi en síðasta mannskæða árás þeirra þar í landi var árið 2013 þegar 47 ára maður var drepinn af hákarl á vinsælli strönd vestur af Auckland. Þar á undan var síðasta mannskæða hákarlaárásin þar í landi árið 1976.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert