Berjast gegn barnabrúðkaupum

AFP

Íslamskir kven-klerkar í Indónesíu hafa ákveðið að skera upp herör gegn hjónaböndum barna. Ákvörðunin er gefin út með svokölluðu fatwa, lögformlegum úrskurði sem sérfræðingum í íslömskum lögum (saria) er einum heimilt að veita að ströngum skilyrðum uppfylltum.

Fatwa er formleg löggjöf en hefur mikil áhrif. Tilskipunin var gefin út eftir þriggja daga ráðstefnu kven-klerka í Indónesíu í vikunni. Klerkarnir hvetja stjórnvöld til þess að hækka giftingaraldur kvenna í 18 ár en samkvæmt núgildandi lögum mega stúlkur ganga í hjónaband 16 ára gamlar. 

Algengt er í Indónesíu að stúlkur séu gefnar í hjónaband og samkvæmt tölum UNICEF gengur ein af hverjum fjórum konum í Indónesíu í hjónaband fyrir 18 ára aldur, samkvæmt frétt BBC.

Ráðstefnan, sem var haldin í Cirebon á Jövu, er fyrsta stóra ráðstefnan sem kven-klerkar halda í Indónesíu. 

Ninik Rahayu, ein þeirra sem skipulagði ráðstefnuna, segir að grípa verði til aðgerða og ekki sé hægt að bíða eftir því að stjórnvöld geri sitt í því að vernda þessi börn. Fatwas er reglulega beitt í Indónesíu en yfirleitt er það Ulema-ráðið, æðsta ráð múslíma í Indónesíu, sem gefur út slíka tilskipun. Ráðið er nánast alfarið skipað körlum.

Klerkarnir vísa til rannsókna sem sýna að margar þeirra stúlkubarna sem ganga í hjónaband í Indónesíu er bannað að halda áfram námi eftir að þær ganga í hjónaband og að um helmingur hjónabandanna endar með skilnaði. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert