Eldurinn í Slite nær slokknaður

Sænskur slökkviliðsbíll að störfum.
Sænskur slökkviliðsbíll að störfum. Wikipedia

Eldurinn sem kom upp í vöruskemmu við sementsverksmiðju í sveitarfélaginu Slite í Svíþjóð í gærkvöldi er að mestu slokknaður. Þetta kemur fram á fréttavef sænska ríkisútvarpsins SVT. Slökkviliðið ákvað fljótlega eftir að það kom á staðinn að reyna ekki að slökkva eldinn vegna mikils eldsmats í skemmunni. 

Frétt mbl.is: Ráða ekki við að slökkva eldinn

Þess í stað var ákveðið að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist út til annarra bygginga sementsverksmiðjunnar en leyfa vöruskemmunni að brenna. Slökkviliðið stóð vaktina alla síðustu nótt en í morgun var talið óhætt að kalla slökkviliðið að mestu af staðnum og fela fyrirtækinu að taka við. Áfram var þó fylgst með af hálfu slökkviliðsins.

Ekki þurfti að rýma hús í nágrenninu og ekkert manntjón varð í eldsvoðanum. Þá slasaðist enginn. Fram kemur enn fremur í frétt SVT í dag að talsverð vinna sé fram undan til þess að tryggja að umhverfið á svæðinu hafi ekki orðið fyrir skaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert