Nýjasta æðið: Dansað á veggjum

Hópur kvenna reynir við dabke-áskorunina.
Hópur kvenna reynir við dabke-áskorunina.

Eitt sinn voru allir að planka. Svo voru allir að hella ísvatni yfir höfuð sitt. Þá tók við gínu-áskorunin. Og nú það nýjasta nýtt: Að dansa upp um alla veggi. Með smá hjálp frá félögunum.

Dabke-dansinn sem dansaður er í þessu nýjasta æði er ekki nýr af nálinni. Hann er í raun arabískur þjóðdans sem hefur verið vinsæll meðal íbúa Líbanon, Jórdaníu, Íraks, Sýrlands og Palestínu lengi. Sérstaklega er vinsælt að stíga sporin í brúðkaupum og við önnur hátíðleg tækifæri. Met hafa verið slegin í fjölda þeirra sem taka þátt í dansinum að hverju sinni og í ágúst árið 2011 dönsuðu 5.050 manns dabke-dans á götu í Líbanon.

En nú er dansinn heldur betur farinn að breiðast út. Til að taka þátt í dabke-áskoruninni þarf að hafa hóp dansara. Mynduð er röð og sá fremsti leiðir hópinn áfram um svæðið sem dansað er á. En í stað þess að snúa við þegar komið er að vegg er einfaldlega dansað upp vegginn með stuðningi hinna sem mynda keðjuna. 

Vesturlandabúar hafa tekið vel við sér síðustu vikur og myndir af fólki að taka dansspor upp um alla veggi hrúgast inn á samfélagsmiðla m.a. í Frakklandi, Ástralíu og Bandaríkjunum.

hér að neðan má sjá brot af nokkrum hópum að reyna sig við áskorunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert