Þekja sig í leðju og bananalaufum

AFP

Fjöldi Filippseyinga makaði leðju í andlit sín og þakti sig í laufum af bananatrjám í gær þegar þeir fögnuðu trúarhátíð sem á einnig rætur sínar að rekja til hernáms Japana á Filippseyjum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Fram kemur í frétt AFP að hátíðin Taong Putik, eða Leðjufólk, sé haldin árlega í bænum Aliaga, sem er um eitt hundrað kílómetra fyrir norðan höfuðborgina Manila, til heiðurs Jóhannesi skírara. Hundruð manna, kvenna og barna fóru við sólarupprás að svæði þöktu í leðju.

Tilgangurinn er að líkja eftir meintu útliti Jóhannesar. Tengslin við styrjöldina eru á þá leið að sögn íbúanna að Japanir hafi ætlað að taka alla karlmenn í einu af þorpunum á svæðinu og skipað þeim að safnast saman fyrir utan þorpskirkjuna. 

Konur og börn í þorpinu báðu til Jóhannesar og þá hafi skollið á gríðarleg rigning sem hafi neytt japönsku hermennina til þess að flýja. Þakklátir þorpsbúar hafi þá velt sér hamingusamir upp úr leðjunni.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert