Leiddi lífvarðasveitina fyrst kvenna

Couto leiddi lífvarðasveit drottningar í sögulegri athöfn í dag.
Couto leiddi lífvarðasveit drottningar í sögulegri athöfn í dag. AFP

Megan Couto varð í dag fyrsta konan í sögu Buck­ing­ham-hall­ar í London til að ganga í raðir lífvarða Bretadrottningar. Hún var enn fremur gerð að liðsforingja lífvarðasveitarinnar, sem er ábyrg fyrir því að verja höllina.

Couto er 24 ára gömul og hefur sinnt þjónustu fyrir kanadíska herinn í sjö ár.  

Couto leiddi lífvarðasveitina frá Wellington Barracks að Buckingham höll fyrr í dag, í sögulegri athöfn. Couto sagði í samtali við fjölmiðla fyrir athöfnina að hún væri ekki stressuð. Stífar æfingar hefðu farið fram og nú yrði hún bara að gefa sveitinni réttu fyrirmælin.

„Ég er bara að einbeita mér að því að vinna vinnuna mína eins vel og ég get og vera auðmjúk. Allir samstarfsfélagar mínir yrðu himinlifandi með að vera liðsforingjar lífvarðasveitarinnar og eins er það mikill heiður fyrir mig,“ sagði hún.

Á þeim 180 árum sem her­menn hafa staðið vörð um höll­ina hef­ur eng­in kona verið þar á meðal. Skipting lífvarða fyrir utan höllina er víðfræg og fer fram fjórum sinnum í viku. Fjöldi ferðamanna fylgist með og tekur myndir, og var dagurinn í dag engin undantekning.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert