Handsprengjum varpað á hæstarétt

AFP

Tveimur handsprengjum var varpað úr þyrlu á hæstarétt Venesúela og segir forseti landsins, Nicolas Maduro, árásina hryðjuverk gegn ríkisstjórn landsins.

Maduro ávarpaði þjóð sína í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi og sagðist hann hafa virkjað allan herafla landsins til þess að tryggja frið í landinu. Ekki kom fram í máli hans hvenær árásin var gerð á hæstarétt.

„Fyrr eða seinna munum við finna þyrluna og þá sem frömdu hryðjuverkaárásina,“ sagði Maduro. 

Vikum saman hefur verið mótmælt á götum úti í landinu og talar forsetinn um tilraun til valdaráns. Hann telur að flugmaður þyrlunnar hafi unnið fyrir fyrrverandi innanríkis- og dómsmálaráðherra landsins, Miguel Rodriguez Torres, sem Maduro segir undirbúa valdarán í landinu. Fyrr um daginn sakaði Maduro Bandaríkin um að standa á bak við valdaránstilraunina og varaði Donald Trump Bandaríkjaforseta við því að Venesúela myndi láta hart mæta hörðu ef Bandaríkin hefðu afskipti af innanlandsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert