Afneita stjórnmálastefnu Tyrklands

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, fordæmir handtöku mannréttindasinna í Tyrklandi. Í …
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, fordæmir handtöku mannréttindasinna í Tyrklandi. Í kjölfarið segir hann Þýskaland endurskoða stefnu sína gagnvart stjórnmálum í Ankara. AFP

Ríkisstjórn Þýskalands varar ríkisborgara við handahófskenndum handtökum ferðist þeir til Tyrklands. Þetta kemur í kjölfar handtöku sex mannréttindasinna í Tyrklandi, þeirra á meðal Þjóðverjans Peter Steudner.

Utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, fordæmdi takmarkanir á aðgengi ræðismanna að Þjóðverjum sem eru í haldi í Tyrklandi. Utanríkisráðuneytið hvetur Þjóðverja sem ferðast til Tyrklands, hvort sem er í frí eða vegna vinnu, að gæta fyllstu varúðar. Þetta kemur fram í frétt BBC

Die Welt greindi frá því að Þýskaland muni endurskoða stefnu sína gagnvart stjórnmálum í Ankara vegna breytinga á stjórnmálum þar í landi í kjölfar tilraunarinnar til valdaráns í fyrra. „Við getum ekki haldið áfram eins og áður. Við verðum að gera það skýrara en áður svo að stjórnmálamenn í Ankara skilji að stefna þeirra hafi afleiðingar,“ sagði Gabriel á blaðamannafundi í Berlín í dag. 

Þá sagði hann að Þýskaland myndi biðja Evrópusambandið um að endurskoða samninga þeirra um tollbandalag við Tyrkland auk beiðni þeirra um aðild að Evrópusambandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert