Gerðu loftárás á „vinveittar sveitir“

Liðsmenn afganskra öryggissveita að störfum í Helmand-héraði.
Liðsmenn afganskra öryggissveita að störfum í Helmand-héraði. AFP

Sextán afganskir lögreglumenn féllu í loftárás Bandaríkjamanna í Helmand-héraði að sögn yfirvalda. Tveir særðust.

Árásin átti sér stað í gær er afganskar öryggissveitir voru að störfum í þorpi í héraðinu, að sögn talsmanns lögreglunnar. Hann segir að í hópi þeirra sextán sem féllu hafi verið tveir foringjar öryggissveitanna.

Þorpið sem lögreglumennirnir voru í er á svæði sem talibanar ráða yfir að mestu. Öryggissveitirnar vinna með Bandaríkjamönnum á svæðinu og í yfirlýsingu frá herliði NATO í Afganistan er atvikið harmað. Þar kemur fram að skotið hafi verið úr lofti þegar að „vinveittar afganskar sveitir“ voru á vettvangi. Mannfall hafi orðið. „Við viljum votta fjölskyldunum okkar dýpstu samúð vegna þessa óheppilega atviks,“ segir í yfirlýsingu NATO. Einnig kemur fram að tildrög árásarinnar verði rannsökuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert