Herlög Duterte framlengd til ársloka

Frá atkvæðisgreiðslunni í þinghúsinu í höfuðborginni Manila.
Frá atkvæðisgreiðslunni í þinghúsinu í höfuðborginni Manila. AFP

Filippíska þingið samþykkti í dag að framlengja herlögin á suðurhluta Filippseyja til ársloka en Rodrigo Duterte forseti hafði lýst þeim yfir til þess að sporna við uppgangi íslamskra öfgamanna. 

Frumvarpið um áframhaldandi herlög í Mindanao-héraðinu fékk yfirgnæfandi stuðning þingmanna og munu þau vara til 31. desember í minnsta lagi. Ríkisherinn hefur staðið í ströngu í tvo mánuði við að reyna að endurheimta borgina Marawi sem er undir stjórn íslamista.

Talsmaður Duterte þakkaði þinginu fyrir atkvæðisgreiðsluna og sagði að þjóðin hefði valið að sameinast til þess að verja lýðveldið. 

Í glærusýningu sem var sýnd þingmönnum var ástandinu í borginni líkt við hertöku Ríki íslams á Mosul í Írak. Fullyrt var að Marawi gæti orðið aðdráttarafl fyrir vígamenn í Írak og Sýrlandi, og að aðrar borgir í Mindanao væru í hættu. 

Heryfirvöld segja að aðeins 60 vígamenn íslamista séu eftir í borginni en Duterte telur að herlögin þurfi til þess að endurbyggja borgina og tryggja að stríðið breiðist ekki út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka