Rændu 70 þorpsbúum

Þjóðvegir um ákveðin svæði Afganistans eru að verða sífellt hættulegri …
Þjóðvegir um ákveðin svæði Afganistans eru að verða sífellt hættulegri ferðafólki. AFP

Lögreglan í Afganistan hóf í dag leit að þrjátíu þorpsbúum sem var rænt af skæruliðum talibana fyrir tveimur dögum. Sjötíu manns var upphaflega rænt en þrjátíu sleppt skömmu síðar. Mannránið varð í Kandahar í suðurhluta landsins.

Að minnsta kosti sjö þeirra sem var rænt fundust látnir í gær við þjóðveg sem liggur í gegnum Kandahar og til Tarinkot, höfuðborgar Uruzgan-héraðs. Talibanar eru fyrirferðamiklir á svæðinu.

Enginn hópur hefur lýst ábyrgð á mannráninu á hendur sér og ekki er ljóst hvers vegna þessum hópi var rænt. Þó er talið að talibanar hafi sakað fólkið um að vinna gegn sér og með afgönskum yfirvöldum.

Óbreyttir borgarar verða sífellt oftar fyrir áreiti og árásum í landinu eftir afgönsk stjórnvöld hófu stórsókn gegn talibönum líkt og þeir gera oft á vorin. Bandalagsríki, m.a. Bandaríkjamenn, styðja yfirvöld í þessum aðgerðum.  

Þjóðvegir á svæðum þar sem skæruliðar halda til, eru að verða hættulegri en áður. Talibanar sem og aðrir vopnaðir hópar hafa síðustu misseri ítrekað rænt og drepið vegfarendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert