Bílstjóri flutningabílsins ákærður

Bílastæði Walmart verslunarinnar þar sem flutningabílnum var lagt.
Bílastæði Walmart verslunarinnar þar sem flutningabílnum var lagt. AFP

Flutningabílsstjórinn sem ók bílnum sem átta manns fundust látin aftan í við Walmart-verslun í San Antonio í Texas á sunnudag, hefur verið ákærður fyrir að flytja ólöglega fólk til landsins aftan í bíl sínum. 28 til viðbót­ar fundust slasaðir eða særðir í bíln­um, þar af tutt­ugu al­var­lega og létust tveir þeirra eftir komuna á sjúkrahús. Í hópn­um voru bæði börn og full­orðnir.

Bílstjórinn James Mathew Bradley, gæti að því er BBC segir, átt yfir höfði sér dauðarefsingu vegna málsins. Bradley segist hins vegar ekkert hafa vitað af fólkinu og að því hafi verið komið þar fyrir á meðan að hann var að sinna öðrum erindum.

Hitastigið fyrir utan bílinn var 38 gráður er er fólkinu var ekið frá Mexíkó til San Antoniu aftan í flutningavagn bílsins án lofkælingar eða vatns. Lögregla hefur greint frá því að hún telji málið tengjast smygli á fólki.

Eftirlitsmyndband af bílastæði Walmart sýnir fjölda bíla koma og sækja fólk úr bílnum og talið er að nokkrir til viðbótar kunni að hafa flúið fótgangandi og hafa falið sig í skóglendi í nágrenninu.

Tomas Homan, sem er starfandi yfirmaður innflytjendaeftirlitsins segir að allt að 100 manns kunni að hafa verið í bílnum.

Starfsmaður hjá Walmart til­kynnti lög­regl­unni að stór­um vöru­flutn­inga­bíll hefði verið lagt á bíla­stæðið. Bað hann um að lög­regl­an mundi kanna málið nán­ar. Lög­reglu­stjór­inn sagði að maður hefði komið frá bíln­um í átt að starfs­mann­in­um og beðið um vatn. Starfsmaður­inn færði hon­um vatn en hringdi svo strax á lög­regl­una.

Stjórnvöld í Mexíkó segjast vinna náið með bandarískum yfirvöldum við að bera kennsl á þjóðerni hinna látnu.

BBC hefur eftir sérfræðingum í þessum málum að smygl á fólki sé verulegt vandamál í suðurhluta Texas og nokkur sambærileg mál hafi komið upp á svæðinu á undanförnum mánuðum.

7. júlí fundu bandarískir landamæraverðir 72 óskráða innflytjendur frá Mið-Ameríku sem læstir höfðu verið inni í gámi og áttu sér ekki undankomu auðið. Næsta dag fundust 33 manns læstir inni í flutningabíl við eftirlitsstöð á leiðinni til San Antonio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert