Fagna „sigurdegi“ Kóreustríðsins

64 ár eru í dag frá því að Suður-Kórea og Norður-Kórea sömdu um vopnahlé, 27. júlí 1953. Norður-Kóreubúar hneigðu sig í grenjandi rigningu fyrir framan grafhýsi Kim Il Sung, stofnanda landsins, og sonar hans í dag til að fagna lokum stríðsins. Norður-Kóreumenn kalla daginn „sigurdaginn“.  

Þar sem friðarsamningur var aldrei undirritaður eru ríkin tvö tæknilega enn í stríði. Dagurinn telst engu að síður hátíðardagur hjá báðum ríkjum. 

Sú tilgáta að norðrið myndi skjóta lang­drægri eld­flaug í tilefni dagsins skaut víða upp kollinum hjá stjórnendum leyniþjónustu Bandaríkjamanna og Suður-Kóreu. Norður-kóreska hernum tókst að skjótra langdrægri flaug á loft í til­rauna­skyni fyrr í mánuðinum, sem sérfræðingar sögðu geta náð til Alaska-ríkis eða Hawaii.

Engum eldflaugum var þó skotið á loft í dag og svo virðist sem deginum í höfuðborginni Pyongyang hafi verið eytt í að minnast Kim-ættarveldisins sem verndara þjóðarinnar.

Hér má sjá unga stúlku þrífa þrepin sem leiða til …
Hér má sjá unga stúlku þrífa þrepin sem leiða til styttanna af Kim Il-Sung og Kim Jong-Il. Fólk fagnaði deginum með því að hneigja sig fyrir styttunum. AFP

„Bestu leiðtogar í heimi“

27. júlí 1953 sömdu Suður-Kórea, Norður-Kórea, Kína og Sameinuðu þjóðirnar með stuðningi Bandaríkjanna, um vopnahlé eftir þriggja ára sjálfheldu. Engu að síður heldur Norður-Kórea fram að ríkið hafi unnið stríðið sem landsmenn kalla „frelsisstríð föðurlandsins“.

„Landið okkar sigrar alltaf af því við erum með bestu leiðtoga í heiminum,“ sagði Hong Yong-Dok, sem var við Kumsusan-höllina með barnabörnum sínum, við frönsku fréttaveituna AFP

Að hans sögn hafa „bandarísku heimsvaldasinnarnir“ látið kóresku þjóðina þjást. „Meira að segja foreldrar mínir voru myrtir af þeim í Kóreustríðinu. Við verðum því að kenna afkomendum okkar að hefna sín á bandarísku heimsvaldasinnunum,“ bætir hann við.

Hér má sjá nemendur minnast Kim-ættarveldisins í rigningunni.
Hér má sjá nemendur minnast Kim-ættarveldisins í rigningunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert