Ný innflytjendastefna vegna Brexit

Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands.
Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Nýtt innflytjendakerfi tekur gildi í Bretlandi í mars 2019 þar sem frjálsar ferðir fólks á milli Bretlands og Evrópusambandsríkja munu heyra sögunni til. Brandon Lewis innflytjendaráðherra lét hafa þetta eftir sér á fundi þar sem fjallað var um skýrslu sem greinir ítarlega kostnað og ávinning af innflytjendum frá Evrópusambandsríkjum.

Talið er að skýrslan verði tilbúin í september 2018, sex mánuðum fyrir Brexit. Amber Rudd innanríkisráðherra segir endanlega stefnu í málum innflytjenda frá Evrópusambandsríkjum verða myndaða eftir útgáfu skýrslunnar.

Rudd segir að ferlið byrji á svokölluðu framkvæmdastigi þar sem fólki frá Evrópusambandsríkjum, sem hyggst starfa í Bretlandi, verði gert að skrá sig formlega við komu til landsins.

Samtök iðnaðarins í Bretlandi hafa gefið út að fyrirtæki í landinu þurfi nauðsynlega að fá upplýsingar um nýja kerfið. Mál innflytjenda var eitt af aðalumræðuefnum síðasta árs í kringum þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem ráðherrar lofuðu að taka „aftur“ stjórn á landamærum Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert