Scaramucci telur sig vita hver lekinn er

Anthony Scaramucci samskiptastjóri Hvíta hússins telur sig vita hverjir leka …
Anthony Scaramucci samskiptastjóri Hvíta hússins telur sig vita hverjir leka upplýsingum í fjölmiðla. AFP

Anthony Scaramucci, nýráðinn samskiptastjóri Hvíta hússins, segist hafa „nokkuð góða hugmynd“ um það hvaða hátt settu einstaklingar í starfsliði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta leki upplýsingum í fjölmiðla.

Segir BBC  að svo virðist sem Scaramucci hafi beint fingrinum að Reince Priebus, starfsmannastjóra Hvíta hússins, í Twitter-skilaboðum sem hann síðar eyddi og í viðtölum sem hann gaf í dag.

„Ef Reince will útskýra að upplýsingalekinn sé ekki frá honum kominn látum hann þá gera það,“ sagði Scaramucci í símaviðtali við CNN sjónvarpsstöðina. „Hann þarf að útskýra sínar eigin gjörðir.“

Trump hefur áður sagt að upplýsingalekinn úr Hvíta húsinu ógni öryggi landsins og að hann verði að stöðva.

Spenna milli þeirra Scaramucci og Priebus, tveggja af æðstu aðstoðarmönnum forsetans,  virðist ekki vera neitt launungamál lengur eftir að Scaramucci greindi frá því á Twitter á miðvikudag að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar hefði verið lekið.

Twitter-skilaboðunum var eytt skömmu síðar, en athygli vakti að Scaramucci hafði látið Twitter-nafn Priebusar fylgja með. Bandarískir fjölmiðlar tóku í kjölfarið að geta sér til  um að þarna væri Scaramucci að hóta Priebus, en Scaramucci sagði það vera rangt.

„Tístið var almannatilkynning til þeirra sem leka að allir hátt settir embættismenn eru að hjálpa til við að binda enda á lekana,“ sagði í næstu Twitter-skilaboðum Scaramucci.

BBC segir Preibus, líkt og Sean Spicer, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, hafa verið andsnúna ráðningu Scaramucci. Sagði Spicer raunar upp sama dag og tilkynnt var um ráðningu Scaramucci.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert