Dómari skýtur árásarmann við dómshús

Dómarinn Joseph Bruzzese Jr. særðist alvarlega í árásinni.
Dómarinn Joseph Bruzzese Jr. særðist alvarlega í árásinni. Ljósmynd/Jefferson County Common Pleas Court

Dómari í Ohio í Bandaríkjunum skaut byssumann til bana í dag, eftir að sá hinn sami hafði áður sært hann alvarlega. BBC segir dómarann Joseph Bruzzese Jr. hafa orðið fyrir nokkrum skotum úr byssu árásarmannsins og að hann hefði svarað í sömu mynt.

Atburðurinn átti sér stað við dómshúsið í Steubenville snemma í morgun að staðartíma, en árásarmaðurinn féll fyrir skotum dómarans og starfsmanns réttarins. Dómarinn var hins vegar fluttur með sjúkraflugi til Pittsburg til aðhlynningar.

Saksóknari Jefferson sýslu segir búið að bera kennsl á árásarmanninn sem Nathaniel Richmond, en segir ástæðu árásarinnar ekki liggja fyrir.

Lögreglustjórinn, Fred Abdalla, segist hafa hvatt dómarann sem starfað hefur við dómshúsið í Jefferson-sýslu frá því 1998 til að bera vopn. „Þessi einstaklingur beið þarna eftir dómaranum okkar,“ sagði Abdalla við fréttamenn.

„Þetta særir virkilega.“ Bætti hann við. „Þarna er dómari skotinn fyrir utan dómshúsið [...] þetta var fyrirsát og morðtilraun á dómara okkar.“

Lögregla handtók einnig ökumanninn sem flutti árásarmanninn á vettvang, en kveðst nú telja hann ekki hafa vitað um fyrirætlun Richmonds. Báðir mennirnir eigi hins vegar fangelsisdóma að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert