Hörmungar af mannanna völdum

Barn í kirkjugarði í Sanaa.
Barn í kirkjugarði í Sanaa. AFP

Á annað þúsund börn hafa látist í Jemen frá því átök brutust þar út fyrir þremur árum. Milljónir eru á vergangi og ástæðan er ekki náttúruhamfarir heldur hörmungar af mannanna völdum.

Fyrir nokkrum dögum  birti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna nýja skýrslu um ástandið í Jemen og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvatti í gær stjórnvöld í Jemen til þess að samþykkja bólusetningarátak gegn kóleru. Óttast er að fyrir árslok geti um ein milljón íbúa Jemen verið smituð af kóleru.

WHO sendi milljón skammta af bóluefni til Jemen í júní að beiðni yfirvalda í landinu. En þegar bóluefnið var komið til landsins breyttu yfirvöld um skoðun og afþökkuðu bóluefnið. Það var því sent til Súdan og Sómalíu.

Frá Faj Attan í Jemen.
Frá Faj Attan í Jemen. AFP

Alþjóða Rauði krossinn greindi frá því í síðustu viku að kóleran væri orðin að farsótt í landinu og að 850 þúsund landsmenn myndu líklega smitast fyrir árslok verði ekkert að gert. Yfir 2 þúsund eru þegar látnir úr kóleru í Jemen samkvæmt WHO. Innan við helmingur heilsugæslustöðva í landinu eru starfræktar í dag vegna stríðsins sem þar geisar.

Fátt annað blasir við en hungursneyð á mörgum svæðum í Jemen en fyrir ári birti BBC myndir af ungum dreng, Saleem, sem varð fyrir mörgum tákn ástandsins í Jemen. Saleem hefur braggast líkamlega á þessu ári sem er liðið vegna neyðaraðstoðar erlendis frá en hann mun aldrei jafna sig andlega þar sem hann varð fyrir heilaskaða af völdum vannæringar. Hann er ekki bara einn á báti því svipuð staða blasir við mörgum börnum í þessu landi sem svo fáir virðast muna eftir.

Umfjöllun BBC um stríðið í Jemen: Hvað varð um Saleem?

Á vef Sameinuðu þjóðanna er fjallað um ástandið í Jemen fyrr í mánuðinum:

„Mannréttindabrot halda áfram án afláts í Jemen, auk alvarlegra brota á alþjóðlegum mannúðarlögum. Óbreyttir borgarar eru fórnarlömb „hamfara af mannavöldum,“ að því er fram kemur í nýrri mannréttindaskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag, 5. september.

Að minnsta kosti 5.144 óbreyttir borgarar hafa týnt lífi og 8.749 særst. 1.184 börn hafa dáið og 1.541 særst. Loftárásir bandalags undir forystu Sádi-Arabíu hafa grandað flestum, jafnt börnum sem öðrum sem týnt hafa lífi. Auk árása á markaðstorg, sjúkrahús, skóla, íbúðahverfi og borgaraleg mannvirki hafa undanfarið ár verið gerðar loftárásir á jarðarfarir og lítil ferðaskip. Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir brýnt að skipa óháða, alþjóðlega nefnd til að rannsaka átökin í Jemen. 

„Það er til skammar hversu alþjóðasamfélagið hefur verið ófúst til að krefjast réttlætis fyrir hönd fórnarlamba átakanna í Jemen og það hefur að mörgu leyti stuðlað að áframhaldandi hryllingi,“ segir Zeid.    

Þrenns konar ógn steðjar að Jemen: átökin, kólerufaraldur og hætta á hungursneyð sem ógnar nú lífi tuttugu og einnar milljóna manna. Ekki nóg með að skæðasta hungursneyð heims geisi í landinu heldur herjar jafnframt alvarlegasti kólerufaraldur á byggðu bóli á landsmenn. Hálf milljón hefur sýkst, þar af hafa tvö þúsund dáið, 40% þeirra börn,“ segir á vef upplýsingaskrifstofu SÞ.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert