Búast við stórsigri sjálfstæðissinna

Kúrdar fjölmenntu á kjörstað.
Kúrdar fjölmenntu á kjörstað. AFP

Áætlað er að kosningaþátttaka í kosningum um sjálfstæði sjálfsstjórnarhéraðs Kúrda í norðurhluta Íraks sé um 72%. Kosningarnar fóru fram í gær og enn er verið að telja atkvæði en stjórnmálaskýrendur búast við stórum sigri sjálfstæðissinna. BBC greinir frá. 

Frétt mbl.is: Kosið um sjálfstæði Kúrdistan

Kúrdar krefjast þess að niðurstaða kosninganna muni gefa þeim rétt til að semja um sjálfstæði, en forsætisráðherra Íraks hefur fordæmt atkvæðagreiðsluna og segir hana ganga gegn stjórnarskrá landsins.

Önnur nágrannaríki Íraks eru einnig mótfallin hugmyndinni um sjálfstæði Kúrda og þar fara Íran og Tyrkland fremst í flokki. Yfirvöld í báðum löndum hafa hótað að loka fyrir olíuflutning frá landinu sem og að loka landamærum.   

Bandaríkin hafa einnig blandað sér í umræðuna um sjálfstæði Kúrda og segir Heather Nauert, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, að ákvörðun heimastjórnar Kúrdistans að stofna til einhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði væri vonbrigði. Hún sagði jafnframt að atkvæðagreiðslan auki óstöðugleika og erfiðleika meðal Kúrda og annarra íbúa á svæðinu.

Alls eru á bilinu 25 til 35 milljónir Kúrda í heiminum og dreifast þeir að mestu um Tyrkland, Írak, Íran og Sýrland. 5,3 milljónir Kúrda búa í Írak, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslan um sjálfstæði fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert