Saunders hlýtur Man Booker-verðlaunin

George Saunders með bók sína Lincoln in the Bardo.
George Saunders með bók sína Lincoln in the Bardo. AFP

Bandaríski rithöfundurinn George Saunders hlaut í dag Man Booker-verðlaunin fyrir skáldsögu sína Lincoln in the Bardo. Saunders er þar með annar bandaríski rithöfundurinn til að hljóta þessi 50.000 punda verðlaun.

Lincoln in the Bardo segir af sorg Abraham Lincolns eftir dauða sonar hans og heimsókn hans í grafhýsi hans. Sögusvið bókarinnar er kirkjugarðurinn og gerist sagan öll á einu kvöldi.

Bókin er fyrsta skáldsaga Saunders í fullri lengd, en áður hefur hann getið sér gott orð fyrir smásögur.

Dómnefndin lofaði bókina og sagði hana „einstaklega frumlega“ og „virkilega hjartnæma“.

Saunders, sem er 58 ára Texasbúi sem er búsettur í New York, var einn af sex höfundum sem voru tilnefndir til verðlaunanna þetta árið. Hinir höfundarnir voru bresku rithöfundarnir Ali Smith og Fiona Mozley, bandarísku rithöfundarnir Paul Auster og Emily Fridlund, og svo bresk-pakistanski rithöfundurinn Mohsin Hamid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert