Verður Weinstein sóttur til saka?

Líklegt þykir að Weinstein verði sóttur til saka í einhverjum …
Líklegt þykir að Weinstein verði sóttur til saka í einhverjum málanna. AFP

Lögreglan í Los Angeles hefur nú hafið rannsókn vegna nauðgunarkæru sem komin er fram á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein, en um er að ræða ítalska leikkonu og fyrirsætu, sem ekki hefur verið nafngreind. The Guardian greinir frá.

Bætist hún í hóp yfir 40 kvenna sem stigið hafa fram og sakað Weinstein um kynferðislega áreitni, kynferðisofbeldi og nauðgun. Margar þeirra mjög þekktar leikkonur.

Leikkonan ítalska leitaði til lögreglu á fimmtudag og sagði að Weinstein hefði nauðgað henni á hóteli nálægt Beverly Hills árið 2013, og hefur lögregla staðfest að hafa rætt við meint fórnarlamb Weinstein.

Lögmaður leikkonunnar segir að hún þakki öllum þeim hugrökku konum sem stigið hafa fram og sagt frá ofbeldi af hálfu Weinstein. Það hafi gefið henni sjálfri kjark til að kæra ofbeldið.

Rannsókn á meintum kynferðisbrotum Weinstein stendur einnig yfir hjá lögreglunni í London, þar sem þrjú mál eru til rannsóknar, og New York, þar sem verið er að rannsaka tvö mál.

Þrátt fyrir tugir kvenna hafi stigið fram og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi þá eru mörg málanna orðin það gömul að þau eru fyrnd. Það á hins vegar ekki um mál ítölsku leikkonunnar, sem er aðeins 4 ára gamalt. Weinstein gæti því verið sóttur til saka fyrir nauðgun, en nægar sannanir eru fyrir hendi.

Í New York ríki er ekki hægt að sækja einstakling til saka fyrir kynferðislega áreitni eða vægari kynferðisbrot en nauðgun, fimm árum eftir að brotið var framið. Nauðgunarbrot fyrnast hins vegar ekki. Lögreglan á Manhattan er með eitt brot til rannsóknar frá árinu 2004, þar sem um er að ræða meinta þvingun til munnmaka, og er það brot nógu alvarlegt til að hægt sé að sækja til saka fyrir það.

Vandinn í slíkum málum er þó alltaf að finna nógu sterk sönnunargögn til að hægt sé að ákæra og líkur á sakfellingu þurfa að vera miklar. 

Lögspekingar telja þó hugsanlegt að Weinstein verði sóttur til saka í einhverjum málanna sem komið hafa fram, en líklegt er að hann reyni að semja um málin sem geti orðið til þess að hann lýsi sig gjaldþrota til að reyna að bjarga sjálfum sér fyrir horn.

Samkvæmt frétt New York Times hefur Weinstein nú þegar gert samkomulag í átta málum sem fóru aldrei fyrir dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert