19 farast í eldsvoða í fjölbýli

Íbúar bera hér eigur sínar á brott eftir eldinn. 19 …
Íbúar bera hér eigur sínar á brott eftir eldinn. 19 manns fórust í eldsvoðanum og 8 til viðbótar slösuðust. AFP

19 létust  er eldur kom upp í fjölbýlishúsi í úthverfi Peking, höfuðborgar Kína. Eldurinn kviknaði aðfaranótt sunnudags og tók það slökkviliðsmenn nokkra klukkutíma að ná stjórn á eldinum. Átta til viðbótar slösuðust í eldsvoðanum að sögn kínverskra fjölmiðla.

Upptök eldsins eru enn ókunn, en að sögn lögreglunnar í Peking hafa nokkrir einstaklingar verið handteknir í tengslum við málið.

Íbúar Daxing, hverfisins þar sem eldurinn kom upp, eru að mestu verkafólk frá landbúnaðarhéruðum Kína sem er í leit að ódýru húsnæði.

Nokkrar fataverksmiðjur eru á svæðinu þar sem eldurinn kom upp, en það þurfti 30 slökkviliðsbíla með 14 slökkviliðsteymum til að ráða niðurlögum eldsins.

Eldsvoðar sem verða fólki að bana eru algengir í Kína, þar sem öryggisreglugerðum er oft illa fylgt eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert