Í þriggja ára fangelsi fyrir tíst

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdorgan. Stjórn hans hefur lokað 130 …
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdorgan. Stjórn hans hefur lokað 130 fjölmiðlum síðan í júlí í fyrra. AFP

Tyrkneskur blaðamaður hefur verið dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi fyrir tíst, sem birtist á Twitter-síðu dagblaðsins Cumhuriyet í maímánuði. Dómstólar töldu að tístið hefði falið í sér áróður hryðjuverkamanna, en í færslunni sagði að saksóknari, sem unnið hafði að málsókn gegn stuðningsmönnum klerksins Fethulla Gulen, hefði verið „plægður niður af trukk“.

Þetta orðalag, sem vissulega er ansi ónærgætið, stóð aðeins á Twitter í skamma stund, samkvæmt málsvörn blaðsins. Síðar hafi því breytt í „lést á hörmulegan hátt í bílslysi“.

Blaðamaðurinn, Oguz Guven, var sakaður um að hafa með upphaflegu orðalagi reynt að grafa undan sókn stjórnvalda í Ankara gegn stuðningsmönnum Gulen, sem þau álíta hryðjuverkamann og saka um að hafa skipulagt tilraun til valdaráns í fyrrasumar.

Í sókn gegn tjáningarfrelsinu

Ritstjórnarstefna Cumhuriyet er andstæð stjórn Recep Tayyip Erdogans forseta og samanlagt hafa tyrkneskir saksóknarar krafist 43 ára fangelsisvistar yfir á öðrum tug starfsmanna blaðsins, vegna umfjöllunar þess.

Saksóknarar segja að blaðið hafi verið tekið yfir af stuðningsmönnum Gulen og sé notað til þess að beina spjótum að Erdogan og fegra ólögmætar aðgerðir stjórnarandstæðinga.

Fleiri en 50.000 borgarar hafa verið handteknir í Tyrklandi frá því að misheppnuð tilraun til valdaráns var gerð í júlí í fyrra. Þá hafa stjórnvöld lokað 130 fjölmiðlafyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert