Hjartaknúsarinn Cassidy látinn

David Cassidy var mjög vinsæll á áttunda áratugnum.
David Cassidy var mjög vinsæll á áttunda áratugnum.

Einn mesti hjartaknúsari áttunda áratugarins, bandaríski leikarinn og söngvarinn David Cassidy, er látinn, 67 ára að aldri. Hann var nýverið lagður inn á gjörgæslu í Fort Lauderdale í Flórída vegna nýrna- og lifrarbilunar og lést nokkrum dögum síðar. „Mér þykir leitt að tilkynna að faðir okkar, frændi og ástkær bróðir, David Cassidy, er látinn,“ sagði í yfirlýsingu frá fjölskyldu leikarans. „David lést umkringdur ástvinum sínum, með gleði í hjarta og laus við þjáningar sem höfðu hrjáð hann svo lengi.“

David Cassidy.
David Cassidy. AFP

Cassidy er einna þekktastur fyrir að leika Keith Partridge í þáttunum The Partridge Family á áttunda áratugnum sem voru geysivinsælir í bandarísku sjónvarpi. Hann lék bróðurinn í fimm systkina hópi sem stofnaði hljómsveit. Móðurina Shirley Partridge lék Shirley Jones, sem var raunveruleg stjúpmóðir Cassidys. Gefnar voru út átta hljómplötur með The Partridge Family.

Unglingsstúlkur þyrptust í verslanir til að kaupa plöturnar. Að auki var gefinn út ýmis varningur með myndum af Cassidy, allt frá nestisboxum til tyggjógúmmís.

Þetta æði endaði með ósköpum er mikill troðningur myndaðist á tónleikum með Cassidy í London árið 1974. Þrjátíu voru fluttir á sjúkrahús og fjórtán ára stúlka lést fjórum dögum síðar. Cassidy hætti fljótlega í þáttunum og hóf sólóferil.

Hann gaf út margar plötur á áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar og árið 2001 átti hann ágæta endurkomu er plata hans endaði á meðal fimm vinsælustu platna Bretlands í fyrsta sinn frá árinu 1974. Hann lék einnig í söngleikjum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

Árið 2008 steig hann fram og sagðist eiga við áfengisvanda að stríða. Tveimur árum síðar var hann handtekinn fyrir ölvunarakstur og slíkt hið sama gerðist árið 2013.

Í febrúar á þessu ári datt Cassidy á tónleikum og var í kjölfarið sagt frá því að hann væri með heilabilun. Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því að hann hefði verið fluttur á sjúkrahús vegna nýrna- og lifrarbilunar og biði eftir lifrarígræðslu. 

Cassidy átti tvö börn. 

Frétt Guardian.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert