Lögreglan fjarlægir umdeilda forngripi

AFP

Spænska lögreglan hóf í dag að fjarlægja forngripi frá miðöldum úr safni í Katalóníu-héraði á Spáni samkvæmt fyrirmælum frá stjórnvöldum í Madrid. Aðgerðirnar tengjast deilum á milli ráðamanna í Katalóníu annars vegar og í nágrannahéraðinu Aragon hins vegar um eignarhald gripanna.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að meðal annars sé um að ræða 44 forngripi sem geymdir hafi verið í fornminjasafni í Lleida-safninu í Katalóníu en voru upphaflega í Sijena-klaustrinu í Aragon. Ráðamenn í Aragon hafa haldið því fram að nunnur í klaustrinu hafi selt gripina til Katalóníu með ólögmætum hætti.

Lögregluaðgerðunum, sem eiga sér stað á sama tíma og deilur hafa staðið yfir um sjálfstæðistilburði Katalóníu, var mótmælt af tugum manna fyrir utan Lleida-safnið í dag. Deilan um forngripina nær aftur til níunda áratugar síðustu aldar þegar katalónsk stjórnvöld festu kaup á þeim. Dómstóll ógilti hins vegar kaupin árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert