Asbestið „tímasprengja“ í Indónesíu

Einkennin voru væg og virtust saklaus í fyrstu. Aðallega hósti og þreyta. Það leið þó ekki á löngu þar til Sriyono fékk erfiða sjúkdómsgreiningu – hann er með asbestveiki – ólæknandi lungnasjúkdóm sem oft leiðir til krabbameins.

Sjúkdóminn fékk Sriyono eftir að hafa áratugum saman andað að sér asbest-trefjum í verksmiðjunni í útjaðri Jakarta höfuðborgar Indónesíu, þar sem þessi 44 ára gamli verkamaður vinnur. „Það var ekki að finna neinar upplýsingar um að asbest gæti valdið krabbameini þegar ég byrjaði að vinna í þessum iðnaði,“ segir hann.

„Þetta var áfall,“ segir Sriyono við AFP-fréttastofuna, sem líkt og margir samlandar hans gengur hann bara undir einu nafni.

100.000 dauðsföll árlega

Sriyono er fyrsti Indónesíubúinn sem fær dæmdar bætur fyrir að vera í snertingu við aspest, en rekja má um 100.000 dauðsföll árlega til efnisins.

Indverska ríkisstjórnin greiddi Sriyono 57 milljón rúpíur á þessu ári, eða andvirði um 4.200 dollara, og líklegt er að fleiri sambærileg mál fylgi í kjölfarið. Segir AFP 15 slík mál nú vera í vinnslu í Indónesíu.

Þök húsa í Jakarta sem eru úr asbestosi. Þök á …
Þök húsa í Jakarta sem eru úr asbestosi. Þök á 10% allra húsa í landinu innihalda asbestos. AFP

Asbest-trefjar geta fest sig í lungum og valdið sjúkdómum á borð við lungakrabbameini, fleyðrukrabbameini og asbestveiki samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Efnið er bannað í yfir 60 löndum, m.a. í öllum ríkjum Evrópusambandsins. Þetta krabbameinsvaldandi efni er hins vegar víða enn notað í þróunarlöndunum, m.a. til bygginga, í vefnað, í bremsuklossa og í ódýra einangrun. Kanada, sem eitt sinn var einn stærsti framleiðandi asbests, tilkynnti á síðasta ári um bann við efninu, en ríki á borð við Indland og Rússlands hafa hins vegar verið treg til að banna það.

Ekki virðist heldur stefna í að notkun asbests verði hætt í Asíu á næstunni, að sögn Ken Takahashis, forstjóri rannsóknarstofnunar í asbest-sjúkdómum (ADRI) við háskólann í Sydney.

„Notkun asbests í þessum löndum heldur áfram að vera mikil og fjöldi verkafólks er því í snertingu við efnið og þegar það heldur út í samfélagið er möguleg hætta að fleiri komist í snertingu við efnið,“ segir Takahashi.

Notkun asbests jókst sexfalt frá 1990-2012

Í dag eru rúmlega 60% af öllu asbest-efni sem notað er á heimsvísu notað í Asíu og í Indónesíu hefur notkun á efninu aukist sexfalt á árabilinu 1990-2012, er hún náði hámarki. Það ár voru 161.823  smálestir af asbest notaðar í landinu, en 2014 var talan komin niður í 109.000 smálestir.

Sriyono og kona hans framan við hús sitt Cibinong. „Það …
Sriyono og kona hans framan við hús sitt Cibinong. „Það var ekki að finna neinar upplýsingar um að asbest gæti valdið krabbameini þegar ég byrjaði að vinna í þessum iðnaði,“ segir hann. AFP

Árum saman vann Sriyono að því að framleiða pakkningar þar sem asbest er notað til að innsigla pumpur og stokka. Hann var aldrei varaður við því að heilsu hans stafaði hætta af efninu, né var hann látinn klæðast öryggisbúnaði sem hefði verndað heilsu hans.

Takmörkuð þekking er í Indónesíu á heilsufarshættunni sem stafar af asbesti enda er vinnuöryggi er þar víða ábótavant.

Fjölskyldan í hættu ef efnið berst með heim

Ekki eru til neinar tölur um þann fjölda indónesísks verkafólks sem kemst í snertingu við asbest, en samtök sem vilja banna notkun asbests í Indónesíu, INA-BAN,  telja 4.000 manns hið minnsta vinna að framleiðslu á vörum með asbesti. Mun fleiri komast þó í snertingu við efnið, m.a. í byggingariðnaði og eins er fjölskyldum þeirra sem vinna með efnið ákveðin hætta búin ef trefjar berast með þeim heim í fatnaði, hári, á verkfærum eða skóm.

AFP segir tæplega 180 indónesísk fyrirtæki flytja inn asbest ýmist sem hráefni eða sem tilbúna vöru, efnið sé ódýrt og endist vel. Asbest sé að finna í þaki um það bil 10% allra heimila í landinu, sem og í skólum, markaðsbyggingum og jafnvel sjúkrahúsum.

Yfirvöld í Jakarta segjast hins vegar vera að vinna að því upplýsa fólk um heilsufarshættuna. „Við höfum þegar hafist handa, en Indónesía er mjög stór og við verðum að gera þetta smám saman,“ segir Kartini Rustandi, fer með vinnuheilbrigði í heilbrigðisráðuneytinu.

Það viðhorf veldur hins vegar mörgum áhyggjum sem telja Indónesíu vera heilsufarslega tímasprengju sem geti átt von á flóði málshöfðunar líkt og gerst hafi í mörgum öðrum þróunarríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert