Notuðu logsuðutæki til að brjótast inn

William J. Bratton lögreglustjóri í New York líkti ránunum þeirra …
William J. Bratton lögreglustjóri í New York líkti ránunum þeirra þá við atriði úr kvikmyndinni „Heat“ með þeim Robert de Niro og Al Pacino frá árinu 1995. AFP

Fjórir New York-búar hafa lýst sig seka um að nota logsuðutæki til að komast inn i bankahvelfingar og stinga síðan af með rúmlega fimm milljón dollara ránsfeng í þjófnuðum sem minnir meira á Hollywood kvikmynd en raunveruleikann.

Þeir Michael Mazzara, Charles Kerrigan og Anthony Mascuzzio, nutu aðstoðar Christopher Kerrigan við að ræna andvirði rúmlega fimm milljón dollara í reiðufé, skartgripum, safngripum og öðrum verðmætum úr bankahvelfingum og öryggishólfum að því er AFP-fréttastofan hefur eftir saksóknara í málinu.

Ránin áttu sér stað í Brooklyn og Queens hverfunum í New York í apríl og maí á síðasta ári. Fjórmenningarnir lýstu sig seka fyrir alríkisdómstól á Manhattan í dag og fellur dómur í máli þeirra á næsta ári, en að sögn saksóknara mega þeir eiga von á langri fangelsisvist.

„Þetta er eins og sena úr kvikmynd. Hinir ákærðu notuðu logsuðutæki til að brjóta sér leið í gegnum þakið á bönkum og í kjölfarið inn í hvelfingar og öryggishólf til að stela rúmlega fimm milljónum dollara í reiðufé og verðmætum,“ sagði saksóknarinn Joon Kim.

Ræningjarnir notuðu logsuðutækið til að komast inn í gengum þak HSBC bankans í Brooklyn og Maspeth Federal Savings bankans í Queens. Þeir reistu skúr úr krossviði á þaki húsanna til að fela hvað þeir væru að gera á meðan að ránið fór fram.

Eftir að inn var komið náðu þeir að stela rúmlega 600.000 dollurum í reiðufé og skartgripum og öðrum verðmætum fyrir andvirði 4,3 milljóna dollara.

Þeir voru handteknir í júlí í fyrra og líkti lögreglustjórinn William Bratton ránum þeirra þá við atriði úr kvikmyndinni „Heat“ með þeim Robert de Niro og Al Pacino frá árinu 1995. Sagði Bratton ræningjana hafa verið mjög skipulagða og nákvæma og að erfitt hefði verið fyrir lögreglu að hafa hendur á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert