Aldrei aftur Allen

Woody Allen.
Woody Allen. AFP

Einangrun leikstjórans Woody Allen eykst dag frá degi vegna ásakana um að hann hafi beitt dóttur sína, Dylan Farrow, kynferðislegu ofbeldi fyrir meira en 25 árum síðan. Breski leikarinn Colin Firth bættist í gærkvöldi í hóp þeirra leikara sem ætla aldrei aftur að vinna með leikstjóranum.

Dylan Farrow, sem var ættleidd af Allen og þáverandi eiginkona hans, Mia Farrow, hefur greint frá því hvernig hann hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sjö ára gömul árið 1992. Í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi spurði hún áhorfendur hvort þeir tryðu henni loksins en hún hefur ítrekað greint frá ofbeldinu af hálfu pabba síns án þess að henni hafi almennt verið trúað. Eða það haft einhver áhrif á störf hans.

Mia Farrow og Dylan Farrow.
Mia Farrow og Dylan Farrow. AFP

Allen, sem er 82 ára gamall, hefur svarað fullum hálsi og sakar fyrrverandi fjölskyldu sína um að notfæra sér Time's Up hreyfinguna til þess að halda áfram upplognum ásökunum í hans garð.

En eftir að viðtalið við Dylan Farrow birtist í gærkvöldi sagði Firth í samtali við Guardian að hann myndi aldrei vinna með Allen að nýju.

Firth lék í mynd Allen, Magic in the Moonlight, árið 2014 en það var áður en Farrow greindi opinberlega frá ofbeldinu sem hún varð fyrir af hálfu föður síns í færslu á vef New York Times árið 2014.

Bréfið hef­ur hún með spurn­ingu sem hún bein­ir til les­and­ans: „Hver er upp­á­halds Woo­dy Allen mynd­in þín?“. Þá seg­ir hún að les­and­inn þurfa fyrst að heyra það sem í bréf­inu stend­ur áður en hann ger­ir upp hug sinn. 

Í bréf­inu seg­ir hún ít­ar­lega frá at­viki sem átti sér stað á háa­lofti heim­il­is henn­ar þegar hún var sjö ára göm­ul. „Hann sagði mér að leggj­ast á mag­ann og leika með raf­magns­lest sem bróðir minn átti. Síðan mis­notaði hann mig. Á meðan hann gerði það hvíslaði hann að mér að ég væri góð stelpa, þetta væri okk­ar leynd­ar­mál og lofaði að fara með mig til Par­ís­ar og gera mig að stjörnu í kvik­mynd­um hans.“ 

Þá seg­ir hún að svo lengi sem hún muni eft­ir sér hafi faðir henn­ar gert henni hluti sem hún hafi ekki viljað, en til þess að kom­ast und­an hon­um hafi hún gjarn­an falið sig und­ir rúmi eða læst sig inni á baðher­bergi.

Farrow seg­ist ekki hafa gert sér grein fyr­ir af­leiðing­um þess að segja móður sinni frá mis­notk­un­inni, en trú­verðug­leiki henn­ar var víða dreg­inn í efa.

Í lok­in tal­ar hún um að Allen sé lif­andi sönn­un þess að sam­fé­lagið bregðist fórn­ar­lömb­um kyn­ferðis­legs of­beld­is.

Skilnaður foreldra hennar, Miu Farrow og Woody Allen, var afar hatrammur en Allen yfirgaf eiginkonu sína fyrir ættleidda dóttur hennar úr fyrra hjónabandi, Soon-Yi Previn,  sem var 21 árs á þessum tíma.

Allen, sem hefur leikstýrt yfir 50 kvikmyndum og hlotið fern Óskarsverðlaun auk fjölda annarra verðlauna, hefur alltaf neitað ásökunum og þær hafa aldrei verið sannaðar. Ásakanirnar hafa ekki haft áhrif á feril hans og hann er enn kvæntur Soon-Yi.

En nú virðist öldin önnur í kjölfar ásakana á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein og fleiri. Farrow hefur því stigið fram að nýju með ásakanir á hendur Allen og virðist sem fleiri leggi trúnað á orð hennar, að minnsta kosti úr hópi leikara og annarra sem koma að kvikmyndagerð.

Undanfarnar vikur hafa leikkonur, svo sem Greta Gerwig, Rebecca Hall, Ellen Page og Mira Sorvino, stigið fram og greint frá því að þær sjái eftir því að hafa unnið með Allen.

Óskarsverðlaunahafinn Natalie Portman sagði í viðtali við Oprah Winfrey að hún tryði Farrow. „Hann lýgur og hefur logið svo lengi,“ sagði Farrow í viðtali við CBS This Morning í gær. Hún brast í grát þegar sýndar voru upptökur þar sem Allen neitaði ásökunum.

Dylan Farrow, sem er 32 ára gömul og móðir lítillar stúlku, segir í dag að hún vildi óska þess að málið hefði farið fyrir rétt. „Í hreinskilni sagt, já, ég vildi óska þess að þau hefðu gert það,“ sagði hún í viðtali við CBS. 

Á þeim tíma taldi ríkissaksókanri í Connecticut líkur á að nægar sannanir væru fyrir hendi til að ákæra Allen en taldi Farrow of viðkvæma til að þola réttarhöldin vegna þeirrar athygli sem þau myndu njóta.

„Hann bað mig oft um að koma upp í rúm með sér þegar hann var aðeins á nærbrókinni og ég stundum eins klædd,“ segir Dylan Farrow í viðtalinu í gær eftir að hafa rætt um ofbeldið sem hún varð fyrir af hálfu Allen. 

Allen segir að á sínum tíma hafi meint ofbeldi verið rannsakað af stofnunum eins og Child Sexual Abuse Clinic og Yale-New Haven spítalanum og velferðarsviði New York ríkis. Ekkert misjafnt hafi komið í ljós.

„Þess í stað var það niðurstaða þeirra að viðkvæmu barni hafi verið leiðbeint við að frásögnina af reiðri móður þegar umdeildur skilnaður stóð yfir,“ sagði Allen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert