Flóðaviðvaranir í Frakklandi

Flóðaviðvaranir eru enn í gildi víða í Frakklandi og samgöngur lamaðar. Ekki eykur á gleði Frakka að fylgjast með veðurspám því spáð er áframhaldandi úrkomu.

Alls gildir appelsínugul viðvörun á 23 svæðum Frakklands í dag. Það þýðir að fólki er ráðlegt að halda sig fjarri stöðum sem hætta er á flóðum í ám. Svæðin sem um ræðir eru: Eure, Seine-Maritime, Yvelines, París og svæðið í kring sem nefnist Petite Couronne, Val d'Oise, Oise, Seine-et-Marne, Aube, Yonne, Nievre, Haute-Marne, Meuse, Vosges, Haute-Saone, Doubs, Jura, Loire, Rhone, Isere og Lot-et-Garonne.

Talið er að ár muni flæða yfir bakka sína í mörgum ám í Norður- og Austur-Frakklandi. samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu.

Signa hefur þegar flætt yfir bakka sína í París og er talið að vatnshæð hennar haldi áfram að vaxa þangað til á föstudag. Spáin gerir ráð fyrir að þá nái vatnshæðin 6,10 metrum en í venjulegu árferði er vatnshæð Signu í Pars 2 metrar. Árið 2016 náði vatnshæðin rúmum sex metrum sem þýddi að söfn sem eru með listaverkageymslur nærri bökkum árinnar þurftu að rýma geymslurnar þar sem farið var að flæða inni í kjallara.

Flóðin hafa meðal annars haft áhrif á metro-kerfi (neðanjarðarlestarkerfið) Parísarborgar og margar götur og göng eru lokuð í nágrenni árinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert