19 létust í sjálfsmorðsárásum í Nígeríu

Hryðjuverkamenn Boko Haram samtakanna eru grunaðir um ódæðið, en þeir …
Hryðjuverkamenn Boko Haram samtakanna eru grunaðir um ódæðið, en þeir hafa stundað voðaverk á svæðinu undanfarin ár. AFP

Þrír menn gerðu sjálfsmorðsárás á fiskmarkaði í norðausturhluta Nígeríu í dag. Létust 19 manns í ódæðinu, en yfirvöld á staðnum kenna hryðjuverkasamtökunum Boko Haram um tilræðið.

Árásin kemur í kjölfar réttarhalda yfir fjölda liðsmanna hryðjuverkasamtakanna. Í vikunni var meðal annars einn liðsmaður samtakanna, sem kom að mannráni á 200 skólastúlkum árið 2014, dæmdur í 15 ára fangelsi.

Yfirmenn löggæsluyfirvalda í héraðinu Borno sögðu við fréttamenn að 19 hefðu látist og 70 til viðbótar væru særðir. Fyrst hefðu tveir árásarmenn sprengt sig upp og svo fjórum mínútum síðar hafi sá þriðji sprengt sig upp nálægt.

Átján fórnarlambanna voru almennir borgarar auk eins hermanns. 22 af þeim 70 sem slösuðust eru alvarlega slasaðir að sögn yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert