„Skammastu þín Trump“

AFP

Nemendur við framhaldsskólann í bænum Parkland á Flórída létu Bandaríkjaforseta, Donald Trump, heyra það er þau tóku þátt í göngu gegn byssum í dag. Sögðu þau að Trump ætti að skammast sín vegna tengsla hans við samtök byssueigenda.

„Allir þeir stjórnmálamenn sem þiggja framlög frá National Rifle Association eiga að skammast sín,“ segir Emma Gonzalez en hún leiddi göngu námsmanna í dag. Trump þáði fleiri milljónir Bandaríkjadala í kosningabaráttunni og hefur mjög stutt málstað samtakanna ólíkt forvera sínum í embætti. „Skammastu þín!, skammastu þín!“ kölluðu þátttakendur í göngunni.

Nikolas Cruz, nítján ára Bandaríkjamaður, hefur játað að hafa orðið sautján manns að bana í skotárás á nemendur í Parkland á miðvikudag.

Cruz hafði verið vikið úr skólanum fyrir agabrot. Fyrrverandi skólabræður hans segja að það hafi ekki komið þeim á óvart að hann skuli hafa framið ódæðið því að hann hafi verið heltekinn af byssum og jafnvel átt það til að kynna sig sem „skólaskotmann“ þegar hann heilsaði fólki.

Ennfremur hefur verið skýrt frá því að fjöldamorðinginn var félagi í hreyfingu hvítra þjóðernissinna á Flórída og hafði fengið þjálfun í vopnaburði á vegum hennar. Hreyfingin kveðst þó ekki hafa staðið fyrir skotárásinni.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur viðurkennt að hún hafi fengið ábendingu í september síðastliðnum um að maður með notandanafnið Nikolas Cruz hefði sett inn myndskeið á YouTube þar sem hann sagðist ætla að verða „atvinnuskólaskotmaður“. FBI kveðst hafa kannað málið en segir að ekki hafi tekist að bera kennsl á þann sem setti myndskeiðið inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert