Tugþúsundir flýja átakasvæðin

Tugir létust í loftárásum í Austur-Ghouta í Sýrlandi í dag. Talið er að hátt í 1.350 almennir borgarar hafi látist á svæðinu frá því að hernaðaraðgerðir sýrlenska stjórnarhersins og hersveita hans hófust í febrúar.

Samkvæmt Sýrlensku mannréttindavaktinni eru árásirnar á ábyrgð rússneskra herflugvéla. Varnarmálaráðuneytið í Moskvu sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem kemur fram að rússneski flugherinn komi ekki að hernaðaraðgerðum í Austur-Ghouta.

Í gær voru sjö ár liðin frá því stríðið í Sýr­landi hófst. Á þeim tíma hafa meira en 350 þúsund manns fallið og helm­ing­ur hinn­ar 20 millj­óna þjóðar lagt á flótta.

Flóttaleið frá helstu átakasvæðum opnaðist í gær þegar hersveitir náðu bænum Hamm­uriyeh á sitt vald. Bærinn er tal­inn lyk­ill­inn að kjarna yf­ir­ráðasvæðis upp­reisn­ar­hóp­anna.

Tugþúsundir hafa náð að flýja átakasvæðið frá því í gær. Konur og börn eru í meirihluta þeirra sem hafa streymt út frá svæðinu. Sendiherra Sýrlands hjá Sameinuðu þjóðunum fullyrðir að um 40.000 manns hafi tekist að flýja en samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum og Sýrlensku mannréttindavaktinni er talan nær 20.000.

„Við vorum hrædd við að flýja, okkur var sagt að við yrðum handtekin,“ segir hinn 35 ára gamli Abu Khaled, sem rak eitt sinn fataverslun í Ghouta, en er nú á flótta, líkt og milljónir samlanda sinna.

Flóttaleið frá helstu átakasvæðum opnaðist í gær þegar hersveitir náðu …
Flóttaleið frá helstu átakasvæðum opnaðist í gær þegar hersveitir náðu bænum Hamm­uriyeh á sitt vald. AFP
Konur og börn eru í meirihluti þeirra sem hafa flúið …
Konur og börn eru í meirihluti þeirra sem hafa flúið átökin í Austur-Ghouta síðustu tvo sólarhringa eftir að flóttaleið frá svæðinu opnaðist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert