Sænska lögreglan skaut ofbeldismann til bana

AFP

Lögreglan í Stokkhólmi skaut mann á fertugsaldri til bana í nótt en maðurinn, sem var vopnaður hníf, hafði ráðist á konu á sjötugsaldri. Nágrannar tilkynntu um fjögur í nótt um að verið væri að brjóta gegn konu í húsinu í Skärholmen-hverfinu. 

Að sögn lögreglu réðst lögregla til atlögu og beitti skotvopnum til þess að koma í veg fyrir að maðurinn dræpi konuna. Árásarmaðurinn var úrskurðaður látinn á sjöunda tímanum í morgun að sögn lögreglu. 

Talsmaður lögreglunnar segir í samtali við Dagens Nyheter að eina leiðin til þess að stöðva ofbeldi mannsins í garð konunnar hafi verið að skjóta hann en lögregla skaut bæði á manninn úti á svölum íbúðarinnar sem og inni í íbúðinni á annarri hæð fjölbýlishúss. Tengsl eru á milli mannsins og konunnar.

Konan var flutt á sjúkrahús með mjög alvarlega áverka, samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins.

Frétt DN

Frétt SVT



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert