Sargsyan segir af sér

Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu, hefur sagt af sér í kjölfar umfangsmikilla mótmæla sem hafa staðið yfir í landinu undanfarna daga. 

Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hafa sakað Sargsyan um að vilja ekki sleppa takinu á valdataumunum þegar hann var útnefndur forsætisráðherra landsins, en það gerðist fljótlega eftir að hann steig til hliðar sem forseti landsins eftir tvö kjörtímabil. 

„Götuhreyfingin er mótfallin minni skipun. Ég er að verða við ykkar kröfu,“ sagði ráðherrann í yfirlýsingu.

Fram kemur á vef BBC, að það liggi ekki fyrir hvenær afsögnin muni taka formlegt gildi. 

Yfirlýsingin kom skömmu eftir að Nikol Pashinyan, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, var sleppt úr haldi lögreglu. Hann var handtekinn í gær í kjölfar fundar sem hann átti með Sargsyan sem var sýndur í beinni útsendingu. Þar kallaði Pashinyan eftir afsögn ráðherrans sem var ósáttur og gekk út. 

Auk Pashinyan, þá voru tveir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar og um 200 mótmælendur handteknir.

Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu.
Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert